Kýr

Kýrnar

Vægi kúabúskaparins hefur aukist nokkuð á síðustu áratugum. Segja má að nýtt tímabil hafi hafist með nýju fjósi árið 2000. Gamla fjósið var orðið gamalt, óvinnuvænt og fór ekki vel með kýrnar. Spenastig voru algeng, júgurbólga vandamál og margt var farið að láta á sjá með tilheyrandi óhöppum og vanlíðan kúnna.

Með nýju fjósi er spenastig gleymt fyrirbæri og júgurbólga tiltölulega sjaldgæft vandamál. Kýrnar eru heilbrigðar enda hafa þær allt annað líf, liggja á dýnum, geta étið þegar þær vilja, ótakmarkaður aðgangur að vatni og kjarnfóðri hvenær sem er sólarhringsins.

 


 

Stundum er talað um að fólk geti verið nautheimskt og einnig kýrskýrt. Hver og ein kýr á Björgum hefur sinn eigin persónuleika, sumar eru geðstirðar meðan öðrum finnst kjarnfóðurdallurinn alltaf hálffullur. Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um kýrnar án þess að minnast á nokkrar velvaldar kýr.

Kista 284

 

Kista 284  er undan Fonti og móðir hennar var Kista 158 undan Kistli. Kista 284 er með vinsælustu kúm bæjarins enda sækin sér og sérlega mjólkurlagin. Hún er jafnframt mjög gæf eykur ávallt vinsældir hjá ábúendum.

LetiKista

Kista 284

Krulla 86. Hana má kalla ættmóður, mjög vinsæl kýr á bænum og sérstakur persónuleiki.   krulla Hún var einnig einstaklega mjólkurlagin og viljug til mjalta. Þó var henni afar illa við allskyns afskiptasemi af hennar högum af hendi mannanna. Væri hún slöpp eftir burð dugði henni að sjá bóndann nálgast með lyf, þá leið henni allt í einu betur. Þá var henni sérlega illa við rafmagnsklippur. Einu skiptin sem hún sá hag í því að vera stimamjúk við mannfólkið er þegar hún sér fram á smáaukaskammt af kjarnfóðri.

 


 

Meðal annarra frægra kúa má nefna kýr eins og Vog 22 sem átti á tímabili 5 mjólkandi dætur, Bröndu 45, Torfu 51, Mæðu 58, Vog 69 og Ljómalind 81. Þá er enn hugsað til Sóleyjar sem á sjöunda áratugnum þótti sú besta kýr sem á bænum hefur verið.

Ekki hafa allar ættgóðar og merkar kýr staðið undir væntingum. Kýrin Hetja 100 þótti bera af öðrum kúm og var valin fallegasta kýr Þingeyjarsýslu. Þrátt fyrir gríðarlega hæfileika og fegurð, þá má segja að frægðin hafi stigið henni til höfuðs og frekja og fita urðu henni að falli.