Gönguferð í skógræktinni

Gönguferð í skógræktargirðingunni á Björgum er alltaf ánægjuleg sama hvernig viðrar eða hvaða árstími er.

Gróskumikill gróður og hávaxin tré í skógræktargirðingunni

Gróskumikill gróður og hávaxin tré í skógræktargirðingunni

Hávaxin tré af ýmsum gerðum gefa gott skjól fyrir norðanáttinni og því virðist oft vera logn í trjálundunum þótt vindur blási fyrir utan. Elstu trén voru gróðursett fyrir 50-60 árum og eru því mörg orðin býsna hávaxin.

 

 

Lerkitré sem gróðursett voru fyrir 24 árum

Lerkitré sem gróðursett voru fyrir 24 árum

 

Elstu trén hafa  gefið gott skjól fyrir trjáplöntur sem gróðursettar hafa verið á seinni árum eins og sjá má á þessum hávöxnu og beinvöxnu lerkitrjám sem gróðursett voru sumarið 1991. Plönturnar voru settar niður í skjóli við gamlan lerkilund þar sem mörg trjánna eru ansi kræklótt og barin af norðanáttinni.

 

Auðnutittlingur á lerkigrein

Auðnutittlingur á lerkigrein

 

Fuglar lifa góðu lífi í skógræktinni eins og sjá mátti á þessum auðnutittlingi sem flaug á milli lerkigreina og virtist finna nóg góðgæti í gogginn. Einnig heyrðist í þröstum og músarrindlum en rjúpa sem oft gerir sér hreiður á svæðinu lét ekki sjá sig eða heyra í þessari gönguferð.

 

 

Birkið dafnar vel í lúpínubreiðunni

Birkið dafnar vel í lúpínubreiðunni

Lúpínan í girðingunni er ekki eins mikill aufúsugestur í hugum margra. Hún er þó búin að þekja melana sem voru efst í girðingunni og ýmsar plöntur dafna vel í lúpínubreiðunum s.s. birki, loðvíðir, maríustakkur og blágresi.

 

Blágresið í fullum blóma

Blágresið í fullum blóma

 

Eftirtektarverðar eru stórar breiður af blágresi sem lita neðstu brekkurnar fallega fjólubláar. Rætt var á bænum hverju mætti þakka að blágresið er svona gróskumikið þarna en niðurstaða fékkst ekki í því máli. Engin beit hefur verið á þessu svæði í allmörg ár sem gæti mögulega verið skýring en þó má einnig sjá blágresisbreiður á svæðum þar sem beitt er.

Nokkrar fleiri myndir úr gönguferðinni um skógræktargirðinguna má sjá á Flickr

Tags: ,